Á döfinni

Bréf stjórnarmanns Hagsmunasamtaka heimilanna til Velferðarvaktarinnar

Sælt samnefndarfólk í vinnuhóp um fjármál heimilanna í Velferðarvaktinni á vegum Velferðaráðuneytisins, þ.e. hóp 4 um fjárhagsvanda heimilanna sem á að greina skuldavanda heimilanna og koma með leiðir til lausnar eða eins og segir meðal annars inn á vef Velferðaráðuneytisins um Velferðavaktina. „Að nefndin eigi að kortleggja ástandið, leggja mat á  afleiðingar kreppunnar á markhópinn sem í okkar tilfelli er fjárhagsvandi heimilanna og tilgreina hvaða upplýsingar vantar til að skýr mynd fáist. Að taka saman yfirlit um það sem þegar hefur verið gert til að koma í veg fyrir alvarlegar/varanlegar afleiðingar efnahagsástandsins á fólkið í landinu. Að hafa ævinlega í huga sjónarmið jafnréttis og athuga áhrif aðgerða/aðgerðaleysis á bæði kynin, á innflytjendur o.s.frv. Og síðast en ekki síst að leggja fram tillögur til úrbóta.“

Ég er bara venjulegur Íslendingur sem ofbauð hvað lítið var að gerast í leiðréttingarmálum heimilanna g því að koma þessu frábæra landi okkar af stað aftur eftir efnahagshrunið 2008. Ég vildi láta eitthvað gott af mér leiða og fór á stúfana til að reyna að sjá hvar ég gæti hvað best gert gagn en ég hafði þá aldrei verið í neinum félagsstörfum áður og frekar forðast þau ef eitthvað var, bið ykkur því að afsaka að þetta bréfkorn mitt er kannski ekki eftir bestu forskrift um skýrslur og efni sent á nefndir en minni á að ég er ekki vanur nefndarmaður og veit að ég get átt á hættu að fá ákúrur fyrir en það verður þá bara að hafa það. Sá fljótlega að nánast einu samtökin sem voru að gera eitthvað alvöru gagn og voru inn í allri umræðunni, voru málefnaleg og ekki pólitísk voru Hagsmunasamtök heimilanna sem voru og eru sjálfboðaliðasamtök. Ég skrái mig í HH 2009 og á aðalfundi 2010 bauð ég mig fram í stjórn og er kosinn í aðalstjórn. Þegar ég var svo beðinn að taka sæti Hagsmunasamtaka heimilanna í nefnd Velferðavaktarinnar þá gerði mér miklar vonir því í henni eru engir aukvisar og fyrir utan formanninn, Þorbjörn Guðmundsson sem er skipaður af Velferðaráðherra eru þar m.a. aðilar frá Umboðsmanni skuldara, Íbúðarlánasjóði, Alþýðusambandi Íslands, Velferðarráðuneytinu, Samtökum

Verð að viðurkenna að ég kalla þessa ágætu nefnd okkar „teboð dauðans“ þegar ég er að gefa skýrslu um störf Velferðavaktarinnar innan Hagsmunasamtaka heimilanna. Það geri ég vegna þess að mér hefur ekki fundist vera mikill vilji innan vinnuhópsins til að setja sig inn í mál þeirra sem skulda og standa höllum fæti með örfáum undantekningum þó sem ekki ber mikið á. Mér finnst umræðan innan hópsins frekar hafa snúist um að sannfæra alla innan Velferðavaktarinnar og út á við um að þær aðgerðir sem búið er að grípa til eigi að duga og dugi, bara ef við náum að koma öllum í þær með góðu eða illu þó samfélagið sé að hrópa á alvöru lausnir fyrir utan. Mér finnst ekkert tillit hafa verið tekið til þeirra sem áttu eitthvað í eignum sínum fyrir hrun og má segja að flestar ef ekki allar lausnir sem kynntar hafi verið hafi verið bankamiðaðar, þ.e. miðað að því að bjarga bönkunum og fjármagnseigendum frekar en heimilunum, því miður. Ég hef sagt það áður og segi það enn, þessar aðgerðir eru ekki að duga og fólk er ekki sátt við þær og okkur öllum ber skylda til að hlusta á fólkið og finna leiðir til að gera betur í staðinn fyrir að reyna að þagga niður í því. 

Að auki má benda á að þessi sami formaður okkar í Velferðavaktarhópnum er einnig formaður stjórnar Sameinaða lífeyrissjóðsins og sem slíkur einn af verðtryggingarvörðum þessa lands en verðtrygging húsnæðislána heimilanna er einmitt það sem er hvað mestur þyrnir í augum okkar hjá HH og er að okkar mati eitt það versta sem heimilin í landinu þurfa að glíma við með ófyrirséða og óútreiknanlega hækkun lána falda í framtíðinni. Við höfum velt því fyrir okkur hvernig slíkur aðili á að geta fjallað um réttmæti verðtryggingu lána heimilanna á hlutlausan hátt sem hefði samt getað búist við ef miðað er við að hann er líka framkvæmdastjóri Samiðnar sem er samband iðnfélaga og stéttarfélag fjölmargra iðanarmanna. Að mati okkar í HH er það ein mesta kjarabótin sem völ er á að aflétta verðtryggingunni af heimilum landsins og setja á sama tíma hámark á vexti húsnæðislána þannig að allir aðilar hafi hag að því að halda verðhækkunum í lágmarki og þar með verðbólgu sem verðtryggingin er afleiða af.   

Þessu til viðbótar vil ég fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna koma því að í umræðunni að það er ekki bara skuldavandi sem almenningur á við að etja heldur líka að launavandinn sé orðinn það mikill að það sé sívaxandi fjöldi fólks sem hefur ekki efni á að halda heimili með sómasamlegum hætti og þurfi að bjóða börnum sínum upp á eitthvað sem á ekki að þurfa að líðast í þjóðfélagi eins og okkar. Bendi ég t.d. á skrif Hörpu Njáls þessu til staðfestingar. Við hjá HH höfum bent á að gera þurfi raunframfærsluviðmið sem grunnlaun, tryggingar, bætur og atvinnuleysistryggingar yrðu miðaðar út frá, það sem gert var hér fyrr á árinu og kallað var neysluviðmið var ekkert annað en mæling á neyslu en hafði ekkert með það að segja hvað kostar að lifa á Íslandi fyrir fjölskyldurnar. Til skýringa felst munurinn á útreiknuðum neysluviðmiðum og raunframfærsluviðmiðum í því að annars vegar er miðgildi raunneyslu mælt út frá fyrirliggjandi gögnum Hagstofu Íslands. Hins vegar er eðlileg raunframfærsla fundin út af sérfræðingum og er þá miðað við að skilgreina framfærsluþætti og  þjónustu sem  á að teljast fullnægjandi lýsing á hóflegri eða eðlilegri framfærsluþörf fjölskyldu af tiltekinni stærð, á tilteknum stað og á tilteknum tíma. Út frá skilgreindum framfærsluþáttum sem teljast uppfylla eðlilega framfærsluþörf er fundinn raunframfærslukostnaður. Raunframfærslukostnaður og lágmarks framfærsluviðmið unnin út frá þeim hafa um margra ára skeið verið opinber á öðrum Norðurlöndum, svo sem Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Ástandið á eftir að versna mikið ef við förum ekki að horfast í augu við vandann og gera það sem gera þarf og viljum við  meina að það sé mikill dulinn vandi, t.d vegna þess að fjármálastofnanir skrái vandann ekki rétt og séu ekki að gefa upp réttar tölur um fjárhagsvanda heimilanna. Má í því sambandi minnast á að það eru ekki til samræmdar tölur um þann vanda sem þó er hægt að mæla og frumvarp sem gefur leyfi til samkeyslu gagn er kæft í nefnd þingsins. Þetta er ekkert annað en þöggun af verstu tegund sem kemur til með að bíta okkur illilega þegar hið rétta kemur í ljós og áhyggjur okkar í Hagsmunasamtökum heimilanna er að þá verði vandinn orðinn nánast óbærilegur fyrir allt of marga með öllu því slæma sem því fylgir. 

Eins og ég hef beðið um áður og talað um á fundum nefdarinnar þá fer fram á að inn í þessa skýrslu sem við eigum að skila af okkur séu eftirfarandi kröfur okkar í Hagsmunasamtökum heimilanna.

 

  1. Að skorað sé á Alþingi að samþykkja strax frumvarp um rannsókn á fjárhagsstöðu heimilanna sem liggur fyrri og gerir það kleyft að samkeyra upplýsingar frá lánastofnunum og öðrum um skuldavanda heimilanna. Þegar það er komið í gegn er fyrst hægt að fara að skoða skuldavanda heimilanna í samhengi og koma með góða greiningu á vandanum sem gefur aftur kost á því að bregðast rétt við vandanum og koma okkur út úr þessari stöðnum sem við erum í og sem er að stoppa þjóðfélagið ef ekkert verður að gert.
  2. Að við förum fram á að Alþingi setji strax lög um raunframfærsluviðmið en út frá því má svo finna út lágmarksframfærsluviðmið og því sé rækilega komið til skila í skýrslunni að það sé ekki bara skuldavandi sem fólk á við að etja heldur líka launavandi sem felst í því að grunnlaun eru of lág miðað við raunframfærslukostnað eins og sýnt hefur verið fram á t.d. með mælingu Velferðaráðherra á rauneyðslu sem kallað var neysluviðmið. Einnig hefur þetta komið fram í fjölmörgum greinum og skýrslum undanfarið og má þar t.d. nefna skrif Hörpu Njáls og Talsmanns neytenda og að okkar mati kemur þetta ennþá betur í ljós þegar samkeyrsla á fyrirlyggjandi gögnum verður leyfð, samanber lið 1 hér fyrir ofan.
  3. Að á meðan ekki sé búið að fá endanlega úr því skorið hvort afturvirkur útreikningur og vextir áður gengisbundinna lána standist lög og þar á meðal lög sem við sem EES aðili erum búin að innleiða, séu öllum nauðungarsölum og aðfararbeiðnum frestað og ekki verði staðfestir þeir afturvirku útreikningar sem búið var að senda á fólk á meðan þessi óvissa er fyrir hendi.
  4. Einnig förum við fram á að Velferðaráðherra fyrir hönd ríkistjórnarinnar fari fram á það við eftirlitsstofnun ESA að kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna fái flýtimeðferð til að fá skorið út um lögmæti þeirra aðgerða sem verið er að vinna eftir og þá ekki síst til að minnka áhættuna á því að ríkið sé skaðabótarábyrgt vegna laga númer 151/2010. Í kvörtuninni segir meðal annars að stjórnvöld fari ekki að neytendatilskipun EES.  Ágallar séu á innleiðingu og framkvæmd Evrópu tilskipun neytendalaga nr. 93/13/EEC sem kveður m.a. á um bann við beitingu aflsmunar í samingsgerð og bann við afturvirkri og íþyngjandi lagasetningu gagnvart neytendum.
  5. Að lokum vilja Hagsmunasamtök heimilanna að inn í þessari skýrslu Velferðavaktarinnar verði áskorun á stjórnvöld um að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna því að mati okkar í HH er það ein mesta kjarabótin sem völ er á fyrir heimili landsins og setja á sama tíma hámark á vexti húsnæðislána samhliða nýrri hugsun í húsnæðismálum almennt sem búið er að boða af stjórnvöldum.

 

Reykjavík 16.5.2011

 

Vilhjálmur Bjarnason.

Hagsmunasamtökum heimilanna

Lesa áfram...

ESA kvörtunin - yfirlit

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á inntaki kvörtunarinnar sem send var til Eftirlitsstofnunar EFTA nú á dögunum en samtökin eru auk annarra aðili að kvörtuninni.  Tilgangur þessa yfirlits er að miðla til almennings upplýsingum um kvörtunina á einfölduðu máli og á íslensku.  Mikilvægt er að kvörtunarefnin komist til skila í umræðuna og hún sé efnislega í samræmi við inntak hennar.

 

Í kvörtuninni segir að stjórnvöld fari ekki að neytendatilskipun EES.  Ágallar séu á innleiðingu og framkvæmd Evróputilskipun neytendalaga nr. 93/13/EEC sem kveður m.a. á um bann við beitingu aflsmunar í samingsgerð og bann við afturvirkri og íþyngjandi lagasetningu gagnvart neytendum.

a. Þessi kvörtun beinist að löggjafanum vegna nýmæla laga nr. 151/2010.  
b. Þessi kvörtun beinist að dómsvaldinu vegna vanrækslu þess við að verja réttaröryggi neytenda skv. Evróputilskipun, og vegna vanrækslu við að leita ekki álits EFTA dómstólsins  í dómsmáli um gengislánin.
c. Þessi kvörtun beinist að framkvæmdarvaldinu sem hefur vanrækt skyldu sína við að vernda neytendur fyrir aðgerðum fjármálafyrirtækja í krafti aflsmunar.

1. Meginregla í evrópskum neytendarétti bannar ákvæði eða breytingar á samningi sem er íþyngjandi fyrir neytendur og eru ekki í samræmi við upphaflegar forsendur hans.  

Í kvörtuninni er löggjafinn ásakaður um að hafa gerst brotlegur gagnvart evrópskum neytendarétti við samþykkt laga nr. 151/2010 sem breytti lögum nr. 38/2001.  Neytendatilskipun EES bannar breytingar á gerðum samingum sem skaða hagsmuni neytenda.

2. Kvörtunin beinist að þeim aðferðum sem fjármálastofnanir eru að nota til að endurreikna lán og þar með endurnýja kröfur þessara lána á grundvelli laga nr. 151/2010.

Lög nr. 151/2010 hafa afturvirk- og skaðleg áhrif á hagsmuni neytenda.  

Hæstiréttur hefur kosið að horfa framhjá Evrópurétti við endurskoðun á þeim lögum.  

Afturvirkni laganna bætti við íþyngjandi álögum á skuldir sem þegar höfðu verið greiddar.  Skyldu samningum á annað borð breytt ættu þær breytingar ekki að vera íþyngjandi fyrir neytandann miðað við upphaflegar forsendur lánsins.  Með að hækka upphaflega vexti afturvirkt hagnast fjármálafyrirtæki á ólögmæti samninganna.

Endurútreikningur á vöxtum ólöglegra gengislána gengur í berhögg við Evrópurétt þar sem þau skaða hagsmuni og réttindi neytenda.  Mjög fáir, ef nokkrir neytendur hefðu sóst eftir gengislánunum hefðu þeir vitað að á þeim hvíldu vextir Seðlabankans en ekki upphaflegir LIBOR tengdir vextir á samningi. LIBOR tenging vaxta á reyndar ekki við í öllum tilfellum. T.d. voru samningar Kaupþings í stórum hluta tilfella án tilvísana í LIBOR.

Í gr. 18 í lögum nr. 151/2010 var ákvæði um bætur vegna ólöglegra samninga vikið í burtu, en ákvæði bætt í staðinn, sem kvað á um afturvirkan endurútreikning lánasamninga á miklu hærri vöxtum, sem skaðar klárlega hagsmuni neytenda.

Talsmaður neytenda hefur sagt að það standist ekki íslensk lög að hækka álögur á greiðslur sem þegar hafa verið greiddar -samt gera fjármálafyrirtækin einmitt þetta.  Hæstiréttur neitaði að gefa álit á málinu og sótti ekki eftir áliti EFTA dómstólsins í prófmáli þó þess væri óskað af málsaðila.

Lög nr. 151/2010 viðheldur ólögmæti gengistryggðra lána.  Upphaflegu vextirnir voru LIBOR tengdir vextir frá 1,5-3,5%.  Neytendur höfðu borgað vexti af afborgunum sínum og þurfa því afturvirkt að borga vaxtavexti með tilkomu laga 151/2010 sem kveður á um afturvirkni vaxtaútreiknings miðað við vexti Seðlabankans.  Því bætast aukavextir á greiðslur sem höfðu áður borið vexti og verið greiddar.

Fjármálafyrirtækjum hefur verið gert kleyft með lögum nr. 151/2010 að gera kröfur á fyrrum eigendur bíla ef neytandinn hafði komið úr endurútreikningnum í skuld.  Fjármálastofnanir hafa ekki nýtt sér þessa heimild gagnvart fyrri eigendum, en öðru máli gegnir með núverandi eigendur.

3. Fjármálastofnanir eru að gefa út ný lán, sem neytendur neyðast til að skrifa undir.  Það gera þau án tillits til greiðslugetu neytenda.  Gengur það í berhögg við evrópska neytendalöggjöf.

4. Alþingi hafnaði álitum neytenda og stofnunum á borð við Umboðsmanns neytenda og Umboðsmanns skuldara við samningu laga 151/2010.  

Þessir aðilar bentu Alþingi á að brotið væri á neytendum í ljósi EES samningsins með tilkomu afturvirkra og íþyngjandi lagasetningar á neytendur sem skerðir eignarrétt þeirra í skilningi evrópskra mannréttindasjónarmiða.  Var bent á að veikari aðilinn í viðskiptum ætti að njóta góðs af afleiðingum ólöglegra viðskiptahátta en ekki hljóta skaða af eins og raunin hefur orðið.

Mikilvægt er að hafa í huga að fjármálastofnanir buðu upp á gengistryggð lán meðvituð um að þau voru ekki leyfð skv. íslenskum lögum.  Það er mjög vafasamt að hinir brotlegu eigi að hagnast af ólöglegum verkum sínum.

5. Skortur réttaröryggis.  Hæstiréttur horfir framhjá evrópskum neytendarétti sem innleidd hafa verið í íslensk lög.  

Evrópskur neytendaréttur kveður skýrt á um tvenna hluti:

a. Ekki er hægt að breyta skilmálum lánasamnings eftir á ef það skaðar hagsmuni neytandans.

b.  Það er ólöglegt að bæta vöxtum við höfuðstól með afturvirkum hætti.  

Í kvörtuninni kemur fram sú ásökun að Hæstiréttur hafi farið á skjön við evrópska neytendatilskipun nr. 93/13/EEC sem hafði þegar verið innleidd í íslensk lög.

6.  Þegar Hæstiréttur ákvað að þegja yfir ólögmæti/lögmæti laga nr. 151/2010 um afturvirka endurútreikninga lánasamninga, skerti hann réttaröryggi neytenda.  

Þetta gerði hann þrátt fyrir að hafa verið sérstaklega beðinn um það tiltekna álit.

7. Hæstiréttur hafnaði beiðni um að hann leitaði álits EFTA dómstólsinsins í dómsmáli um lögmæti gengisbundinna lána þrátt fyrir beiðni þar um og álit eins dómarans.

8. Framkvæmdarvaldið brást ekki við beiðni um að verja neytendur fyrir aflsmunum fjármálafyrirtækja við endurútreikningum á lánasamningum neytenda.

9. Verðtryggingin gengur í berhögg við evrópskan neytendarétt.

Verbólga hefur verið viðvarandi vandamál á Íslandi. Meðalverðbólga frá árinu 1940 hefur verið um 15% og um 7% frá árinu 1984. Til að bregðast við verðbólgusveiflum var komið á verðtryggingu lána. Verðtrygging lána leggur áhættu vegna fjármálalegs óstöðugleika eingöngu á herðar lántakenda.

Þrátt fyrir að hækkanir launa hafi reynst meiri en verðbólguprósentan í gegnum tíðina hefur höfuðstóll verðtryggðra lána hækkað meira en útborguð laun hækka á ársgrundvelli, þannig að höfuðstóllinn hækkar en lækkar ekki þrátt fyrir stöðuga skilvísi.

Verðtrygging er andstæð evrópskum neytendarétti vegna þess að neytendur geta ekki metið skuldbindingar sínar við samningsgerð þegar ein breytan er algerlega óviss og verðbólgan er sjálfkrafa sett á þeirra herðar.

 

Lesa áfram...

ESA tekur kvörtun til formlegrar afgreiðslu

Samtökum lánþega og Hagsmunasamtökum heimilanna hefur borist svarbréf frá Eftirlitsstofnun EFTA, (ESA) hvar tilkynnt er með formlegum hætti að stofnunin ætli að taka kvörtun okkar vegna meintra brota íslenskra stjórnvalda og stjórnsýslu á Evrópurétti til afgreiðslu á grundvelli gildandi EES reglna.

Lesa áfram...

Stunduðu bílafjármögnunarfyrirtækin stórfelld virðisaukaskattsvik?

Svo virðist að satt sé að því stærri sem glæpurinn er því erfiðara er að koma honum á framfæri og fá af stað rannsókn málsins. Þetta kann að eiga við um mál sem byrjaði 2010 þegar Þórdís Björk Sigurþórsdóttir fór að leita að reikningi frá Sp-fjármögnun fyrir bifreiðakaupum. Engan reikning var að finna í skjalasafni svo Þórdís bað um afrit frá SP en þá kom ýmislegt í ljós sem vakti grunsemdir Þórdísar. Eftirfarandi er útdráttur úr grein Þórdísar frá því í febrúar 2011 en við viljum vekja athygli á þessu máli því RSK virðist ekki hafa talið tilefni til að rannsaka þetta mál hvernig sem á því stendur.

Lesa áfram...

Erindi til stjórnlagaráðs varðandi eignarréttarákvæði

Ágætu stjórnlagaráðsfulltrúar

Með erindi þessu vilja Hagsmunasamtök heimilanna koma þeirri ósk á framfæri við stjórnlagaráð að það setji á dagskrá umræðu um 72. gr. stjórnarksrárinnar um eignarrétt.  Þess er óskað að erindinu verði vísað til þeirrrar nefndar sem stjórnlagaráð telur að sé best til þess fallin að fjalla um það.

Lesa áfram...

Hagsmunasamtök heimilanna auglýsa eftir starfsmanni stjórnar

Hagsmunasamtök heimilanna auglýsa eftir hrikalega duglegum súpermanni/konu í 50% stöðu. Ráðið er í starfið frá og með 15. maí til og með 31. desember 2011 með möguleika á framlengingu. Innan ráðningartímans er gert ráð fyrir ólaunuðu sumarleyfi í nokkrar vikur.

Starfssvið
Undirbúningur stjórnarfunda og ritun fundargerða.
Framkvæmd ákvarðana stjórnar.
Umsjón með heimasíðu og svörun erinda á tölvupósti og stundum í síma.
Umsjón með fjármálum samtakanna og fjáröflun.
Umsjón með kynningarátaki samtakanna.
Skipulagning málefnavinnu.
Ritun umsagna um lagafrumvörp með aðstoð stjórnar.
Ritun greina til birtingar í fjölmiðlum.
Önnur tilfallandi verkefni.

Hæfniskröfur
Samtökin leita að einstaklingi sem hefur þekkingu og brennandi áhuga á málefnum samtakanna og framtíðarsýn og getur hjálpað til við að byggja upp sterk þverpólitísk samtök sem sinna hagsmunum heimilanna. Viðkomandi þarf að vera trúverðugur, heiðarlegur, málefnalegur og ákveðinn í samskiptum við þá sem þörf er á samskiptum við og hafa færni til að setja fram ritmál og talnaefni.
Æskilegt er að hafa menntun eða reynslu sem nýtist í starfi.

Umsóknarfrestur er til 6. maí 2011.  
Umsækjendur sendi umsókn og ferilskrá á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Lesa áfram...

Kvörtun lántakenda hefur verið send til ESA

Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega, hafa með aðstoð hæstaréttarlögmanna, sérfræðinga í Evrópurétti og löggiltra endurskoðenda, ásamt um eitt þúsund einstaklingum, undirritað og sent formlega kvörtun til ESA vegna meintra brota íslenskra stjórnvalda og stjórnsýslu á Evrópurétti. Framkvæmdastjórn ESB og forseta Evrópuþingsins hefur jafnframt verið tilkynnt um kvörtunina og aðstoðar þeirra óskað vegna málsins innan ramma aðildarviðræðna Íslands. Neytendur frá Spáni og Þýskalandi eru einnig aðilar að kvörtuninni vegna sömu brota á grundvallarréttindum ríkisborgara aðildarríkja ESB. Samkvæmt Kaupmannahafnarsamkomulaginu frá 1993, er ein af grundvallarforsendum aðildar að ESB, að umsóknarríki virði grundvallarréttindi borgaranna.

Kvörtunin vísar í vanefndir um eftirfylgni við evróputilskipun 93/13/EC í dómaframkvæmd  auk lagasetningar nr. 151/2010 er gengur þvert á lögleiddan neytendarétt, eignarréttarákvæði stjórnarskrár og umrædda tilskipun um neytendarétt. Sérstaklega er tekið á eftirmálum af yfirlýstu ólögmæti gengisbundinna lána út frá lögum nr. 38/2001 en einnig verðtryggingu. Kvörtunin snýr að dómsvaldi vegna vanrækslu um vernd neytenda samkvæmt neytendalögum og höfnun beiðna um að leita ráðgefandi álits EFTA dómstólsins. Kvörtunin snýr að löggjafarvaldi vegna laga nr. 151/2010 þar sem fyrri brot dómsvalds gegn neytendarétti eru fest í sessi auk þess sem vernd eignarréttar er sniðgengin og farið gegn sjónarmiðum um bann við afturvirkri íþyngjandi lagasetningu. Þessu til viðbótar snýr kvörtunin að framkvæmdavaldi vegna vanefnda um verndun borgaranna er fjármálastofnanir neyta aflsmunar gegn neytendum í samningagerð.

Í kvörtuninni til ESA, eftirlitsstofnunnar EFTA, er yfirlýsingar óskað um brot Íslands á skuldbindandi ákvæðum EES samningsins. Með brotunum er borgurunum neitað um skýr, nákvæm og óskilyrt réttindi sem þeir hafi öðlast með Evrópurétti. Ályktun ESA verði byggð á  eftirfarandi staðreyndum:

  • Ófrávíkjanlegur neytendaréttur hefur verið settur til hliðar af dómsvaldi og beiðnum um ráðgefandi réttarfarslegt álit EFTA dómstólsins um áðurnefnd málefni verið hafnað.
  • Lagasetning er með afturvirkum íþyngjandi ákvæðum fyrir neytendur.
  • Beiðnum til stjórnsýslu um neytendavernd hefur ýmist verið hafnað, afneitað og/eða tæknilegar hindranir settar í götu neytenda.

Ofangreint séu brot á Evrópurétti sem leitt geta til skaðabótaábyrgðar ríkisins gagnvart hlutaðeigandi einstaklingum.

Síðast en ekki síst er óskað yfirlýsingar um að lagarammi verðtryggingar sem er við lýði á Íslandi, þar sem fjárhagslegri áhættu og afleiðingum verðbólgu er sjálfkrafa velt yfir á neytendur, brjóti gegn grundvelli Evrópuréttar.  Út frá þeim lagaramma geti neytendur ekki metið fjárhagslegar skuldbindingar sínar við undirritun samnings og jafnvel léttvæg verðbólga hafi íþyngjandi fjárhagslegar afleiðingar yfir heildar samningstímann.

Samtök lánþega
Hagsmunasamtök heimilanna
ESA hópurinn samanstendur af ofangreindum samtökum og félagsmönnum þeirra auk um 1000 einstaklinga sem eru beinir aðilar að kvörtuninni.

Lesa áfram...

Áskorun til Seðlabanka Íslands

Hagsmunasamtök heimilanna skora á Seðlabanka Íslands til að gangast fyrir óháðri rannsókn á kostum og göllum þess að taka upp nýjan íslenskan gjaldmiðil (NISK).

Fram hafa komið hugmyndir í umræðunni um innleiðingu nýrrar íslenskrar krónu til leiðréttingar á innlendum skuldbindingum og til að flýta fyrir afnámi gjaldeyrishafta.  Þær hugmyndir ganga m.a. út á afskriftir á stórum hluta aflandskróna og leiðréttingu á skuldum heimila og fyrirtækja.



Í ljósi versnandi efnahagshorfa, sem orsakast m.a. vegna skuldastöðu heimila, fyrirtækja og áframhaldandi gjaldeyrishafta, er það álit Hagsmunasamtaka heimilanna að óviðunandi sé að rannsaka ekki til hlítar fleiri leiðir til að koma Íslandi út úr kreppunni, og losa heimilin undan ósjálfbærri skuldastöðu. Slíkt hefði keðjuverkandi áhrif með aukinni eftirspurn eftir vörum og þjónustu í hagkerfinu en innlend eftirspurn neytenda og fyrirtækja er líklega nokkuð undir jafnvægismörkum sem stendur.

Umrædd aðferð er ekki ný af nálinni en Þýskaland er meðal annarra þjóða sem hefur þrívegis nýtt sér hana við að koma skikkan á skuldir þjóðarinnar.  Er það álit Hagsmunasamtaka heimilanna að hugmyndin eigi skilið umræðu og að Seðlabankinn eigi að gangast fyrir óháðri rannsókn á kostum og göllum hennar í samvinnu við fræðasamfélagið.

 

Lesa áfram...

Kveðja fráfarandi formanns

Á þriðja aðalfundi samtakanna 31.mars sl. ákvað ég að stíga til hliðar úr framlínu samtakanna eftir að hafa starfað að krafti að hagsmunamálum heimilanna frá hruni.  Allan tímann sem stjórnarmaður og lengst af sem formaður stjórnar.  Við sem höfum starfað í framlínunni á þessum fyrstu árum samtakanna höfum bæði lagt metnað okkar í að ná árangri til hagsbóta fyrir heimilin og gera samtökin gildandi í umræðu um málefni heimilanna í landinu.

Þegar meta á árangur af störfum samtakanna þennan tíma ber að hafa í huga að verkefnin eru risavaxin og varða flókna og umfangsmikla þætti samfélagsins og efnahagslífsins, sem eiga sér sterka hagsmunaaðila sem verjast starfi Hagsmunasamtakanna af hörku.  Ég fullyrði þó að þrotlaus málflutningur og aðgerðir stjórnar samtakanna hefur haft veruleg áhrif á opinbera umfjöllun um málefni heimilanna, meðvitund almennings um stöðu sína, áherslur á starfsháttum Alþingis, þau úrræði sem þegar eru komin fram af hálfu ráðuneytanna og fjölmargar tilboðsleiðir fjármálafyrirtækjanna.

Þrátt fyrir að margt hafi verið gert duga þau úrræði skammt í þeim vanda sem við er að etja.  Skuldastaða heimilanna hefur verið að síversna frá innleiðingu verðtryggingar fjárskuldbindinga árið 1981 og hefur aldrei verið alvarlegri.  Skuldir heimilanna fjórfölduðust á árunum 2000-2010 á meðan að ríkisstjórn hampaði sí bættri stöðu skulda og tekna ríkissjóðs.  Heimilin hafa búið við fákeppni um húsnæðisform, þar sem sjálfseignarformið er um 87% markaðar og verðtryggð jafngreiðslulán með háum vöxtum eru ríkisform lánskjara.  Saga verðtryggingar er saga stórfelldrar, kerfisbundinnar eignatilfærslu og skuldsetningar heimilanna, sem verður að stöðva.  Með þessu kerfi er verið að ræna öllum sparnaði sem heimilin hafa lagt í fasteignir sínar og óheftar höfuðsólshækkanir endurspegla rán á framtíðartekjum heimilanna.  Spurningar vakna um réttarstöðu neytenda gagnvart eignarrétti samkvæmt Stjórnarskrá Íslands og brotum á Mannréttindasáttmála Evrópu.

Nú er svo komið að um 60.000 heimili eru í afar þröngri stöðu og ráða illa við þá stöðu sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hafa skapað.  Aldrei hafa fleiri heimili verið þvinguð í greiðslu- og gjaldþrot.  Aldrei hafa fjármálastofnanir yfirtekið jafn mörg heimili og nú.  Ný innleidd greiðsluerfiðleikaúrræði virka illa við svo stórt kerfisáfall.  Atvinnuleysi og landflótti er í sögulegum hæðum.  Aldrei hafa jafn mörg fyrirtæki orðið gjaldþrota og síðast liðið ár.  Um 50% allra fyrirtækja í landinu eru nú í fjárhagslegri endurskipulagningu og eru að færa um 6000 milljarða tap milli ára, sem þýðir að þau greiða ekki skatta.

Aðgerðir stjórnvalda eru alls ófullnægjandi og staðan er ólíðandi.  Við eigum skýra sameiginlega hagsmuni með atvinnulífi, fjármálafyrirtækjum og hinu opinbera.  Það er kominn tími til að stjórnvöld og fjármálafyrirtæki láti af þröngsýnni hagsmunagæslu sinni og gangist við ábyrgð sinni á stöðunni.  Hlutirnir gerast ekki fyrirhafnarlaust og þeir breytast án efa ekki í þá átt sem við óskum eftir nema við tökum beinan þátt í að móta áherslur um samfélagið okkar til framtíðar. Hagsmunasamtök heimilanna hafa unnið til verulegra áhrifa í almennri umræðu og meðvitund innan stjórnsýslu og þings.  Þó má betur ef duga skal.  Stöðu heimilanna verður að breyta til batnaðar.  Verkefnin eru risavaxin, brýn og mörg.

Á þessum tímamótum vil ég þakka félagsmönnum góðan stuðning og sýnt traust á umliðnum árum.  Hagsmunasamtök heimilanna eru vissulega vonarneisti í þeim þrengingum sem við erum nú í.  Stjórn samtakanna þarf þó enn breiðari stuðning félagsmanna til að ná frekari frekari árangri.  Ég hvet ykkur því til að halda áfram uppi öflugri málefnaumræðu um bættan hag heimilanna sem víðast og með nýrri stjórn, afla nýrra félagsmanna og taka virkan þátt í starfi samtakanna.

Með góðri kveðju og von um bjartari tíma sem allra fyrst,

Friðrik Ó. Friðriksson, fyrrverandi formaður stjórnar.

Lesa áfram...

Hagsmunasamtökum heimilanna veitt bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins

Laugardaginn 9. apríl veitti Framsóknarflokkurinn Hagsmunasamtökum heimilanna bjartsýnisverðlaunin á flokksþingi í Súlnasal Hótel Sögu. Andrea J. Ólafsdóttir, Gunnar Kristinn Þórðarson, Vilhjálmur Bjarnason og Þórður B. Sigurðsson mættu fyrir hönd stjórnar og varastjórar og tók formaðurinn við verðlaununum við dynjandi lófatak og hélt ræðu fyrir flokksþingið.

Í ræðu sinni hvatti Andrea flokksþingið til að samþykkja ályktun um tímasetta áætlun um afnám verðtryggingar, og bað hún viðstadda flokksmenn um að rétta upp hönd sem styddu málið. Næstum allir flokksmenn réttu upp hönd.

Berum við í Hagsmunasamtökum heimilanna von í brjósti að viðbrögð fundagesta séu merki um breytt viðhorf flokksins til verðtryggingar.

Hér birtist ræða Andreu í heild sinni.

 

"Bjartsýni já – það má með sanni segja að ef við værum ekki bjartsýn á breytingar og réttlæti í þágu heimilanna, þá hefðu HH sennilega verið lögð niður.
Heimilin eru helsta grunnstoð samfélagsins. Þau eru hreiður barnanna okkar. Öflug heimili eru grunnurinn að öflugu samfélagi. Standi stjórnvöld og fjármálastofnanir fyrir því að veikja undirstöðuna, heimilin, veikja þeir eigin undirstöður. Standi stjórnvöld og fjármálastofnanir fyrir því að búa svo um hnútana að þjófarnir sem fóru bakdyramegin inn á heimili okkar, geti nú farið inn um framdyrnar um hábjartan dag og gert það sem þeim sýnist - þá fyrst mun sannarlega verða alvarlegt siðrof í þessu samfélagi. Þá mun svo fara að fólkið í landinu flytur af landi brott í miklu mun meira mæli en það hefur gert hingað til. Þeir sem nú eru hérna eftir eru þeir sem hafa hag af ástandinu, þeir sem hafa gefist upp gagnvart kerfinu og þeir sem enn eru bjartsýnir, enn eru að vonast til að sjá raunverulegar breytingar verða -  í átt að réttlæti.
HH eru ennþá bjartsýn á að forsendubrestur bæði verð- og gengistryggðra lánasamninga verði viðurkenndur. Sú viðurkenning er nauðsynleg svo réttlætið geti náð fram að ganga. Það að hafa eina breytu í lánasamningi algerlega opna, með engum takmörkunum getur aldrei talist eðlilegir né sanngjarnir viðskiptahættir.
Þar sem þið sem hér sitjið áttið ykkur mjög vel á því að HH eru aldeilis ekki upp á punt, þá langar okkur að fara þess á leit við ykkur hér í salnum að reisa hendur í samþykki fyrir því að fundurinn útbúi ályktun þess efnis  að skora á stjórnarflokkana að útbúa tímasetta áætlun um afnám verðtryggingar – í sömu ályktun gætuð þið skorað á þá opinberu þingnefnd sem nú fjallar um verðtrygginguna, með það að markmiði að finna leiðir til að draga úr vægi hennar, sendi frá sér skýrslu þar sem raunverulegar raunhæfar leiðir til úrbóta í því sambandi verða kynntar til sögunnar. Formann nefndarinnar, Eygló Harðardóttur, sem líklegast situr hér í salnum, skorum við á að leiða skýrsluna til lykta með þeim hætti svo við getum áfram haldið í þá vonarglætu að breytinga sé von, að áratugaánauð verðtryggingar á heimilin í landinu verði aflétt.
Stjórn HH vill þakka þann mikla heiður að hljóta bjartsýnisverðlaunin og mun halda ljóskyndlinum á lofti fyrir heimilin í landinu."
Lesa áfram...

Endurútreikningar gengisbundina lána byggja á ólögum

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hefur frá upphafi mótmælt harðlega þeim afturvirku vaxtaútreikningum sem haldið hefur verið fram að Hæstiréttur hafi dæmt (dómur frá 16. sept. 2010 471/2010). Hið rétta er að Hæstiréttur heimilaði aldrei nýja vaxtaútreikninga aftur í tímann heldur var gerður samningur á milli Lýsingar og umrædds lántaka um slíka útreikninga en þeim var að sjálfsögðu frjálst að gera það.

Stjórnvöld, sem hafa i lengstu lög reynt að gæta hagsmuna bankanna og bílalánafyrirtækjanna á kostnað heimilanna, túlkuðu þennan samning sem svo að hann væri dómur Hæstaréttar. Eftir er að reyna á að lögin sem endurútreikningar lánanna byggja á, standist skoðun dómstóla. Þau kveða á um afturvirka vaxtaútreikninga sem lögfróðir menn telja í andstöðu við margvísleg önnur ákvæði laga og stjórnarskrár, svo ekki sé minnst á neytendarétt. Hér er mikið hneyksli í uppsiglingu og ríkið hefur ef að líkum lætur skapað sér stórkostlega skaðabótaskuld.

Nú eru fjármálafyrirtæki að senda viðskiptavinum sínum endurreikning gengistryggðra lána.  Ef félagsmenn eru ósáttir eða óvissir um niðurstöðurnar og vilja fá aðstoð við að láta skoða þær frekar eru 3 megin leiðir i stöðunni:

  • fara til síns fjármálafyrirtækis og fara fram á útskýringar endurreiknings
  • biðja umboðsmann skuldara að meta endurreikninginn
  • leita til óháðra ráðgjafa á því sviði, t.d. spara.is eða lögmanna

Eins og kemur fram að ofan ríkir lagaleg óvissa um afturvirka vaxtaútreikninga. Bílalánafyrirtækin hafa einnig verið án lagalegra heimilda að vörslusvipta bifreiðaeigendur sem eru að fara í greiðsluaðlögun. Þetta er gert með riftun svonefndra leigusamninga sem dómstólar hafa áður skorið úr um að eru í reynd dulbúnir kauplánasamningar. Það eru langsóttir gjörningar sem umboðsmaður skuldara hefur gert alvarlegar athugasemdir við.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum