Nágrannavarsla heimilanna
Frést hefur af grunsamlegum mönnum á ferð að taka myndir af heimilum fólks. Við látum hér bréf aðstoðar yfirlögregluþjóns fylgja með um leið og við hvetjum fólk til að hafa augu og eyru opin.
Við höfum verðir að fá tilkynningar um grunsamlegar
mannaferðir í ásunum þ.e. Heiðarási, Grundarási, Klapparási
og fleiri götum þar sem um er að ræða gangandi menn á
aldrinum 20 til 30 ára. Í einhverjum tilvikum hafa þeir
verið að taka ljósmyndir af húsum og í öðrum hafa þeir
vakið athygli árvökulla íbúa og þótt grunsamlegir. Styggð
hefur komið að mönnum í einhverjum tilvikum þegar þeir
veittu því athygli að íbúar voru að fylgjast með þeim.
Blaðamannafundur 24. sept. 2010
Stjórn HH hélt mjög vel heppnaðan blaðamannafund föstudaginn 24. sept. 2010 í tilfefni af kynningu á tillögum stjórnar samtakanna til lausnar skuldavanda heimilanna.
Hæstaréttardómur er áfall fyrir lántaka
Hæstaréttardómur er féll 16. september, nákvæmlega 3 mánuðum eftir að sami réttur dæmdi gengistryggingu ólöglega, hefur ekki gert neitt til að draga úr óvissu með skuldastöðu lántaka gengistryggðra fasteignalána. Satt best að segja hefur óvissan aldrei verið meiri. Reikna má þó með að fjármálastofnanir telji sig vera komnar á beinu brautina og fjárnám og nauðungarsölur fari nú af stað af enn meiri þunga en þegar er orðið.
Hagsmunasamtök heimilanna minna á að greiðsluverkfall er enn í fullu gildi. Þúsundir hafa verið í greiðsluverkfalli í allt að tvö ár og nú munu bætast þúsundir í hópinn. Fleiri og fleiri telja glórulaust að setja peninga þá botnlausu hít sem kerfið er orðið.
Von er á ályktun Hagsmunasamtaka heimilanna vegna hæstaréttardómsins. Vinsamlega fylgist með heimasíðunni.
Hópmálssóknir samþykktar
Neytendaréttur hefur unnið góðan áfangasigur með nýjum lögum um hópmálssóknir. Hópmálssóknir ganga út á að þrír eða fleiri aðilar sem ,,eiga kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings" geti stofnað ,,málssóknarfélag" í þessum eina tilgangi. Félagið er þá samnefnari félagsmanna og fer með þann rétt til málssóknar sem hver þeirra hefur sem einstaklingur eða lögaðili. Með nýju lögunum opnast möguleiki á að ná mun fyrr fram niðurstöðum í miklum fjölda lagalegra deilumála sem hafa hlotist af bankahruninu. Álagi á dómskerfið kann að létta í heildina miðað við það sem annars lá fyrir. Líkur aukast á að fleiri fá réttarbætur og eða niðurstöðu í málum og geti haldið áfram með lífið með slík mál að baki. HH hafa verið eindregnir talsmenn þessarar réttarbótar fyrir almenning og veitt nefndum Alþingis umsagnir ofl. í þessu sambandi. Við óskum Alþingi og þjóðinni til hamingju með þennan áfanga.