Á döfinni

Óheimilt að gengistryggja segir héraðsdómur

Ú R S K U R Ð U R Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2010 í máli nr. X-35/2010:

NBI hf. (Þorvaldur Emil Jóhannesson hdl.) gegn
Þráni ehf. (Arnar Þór Jónsson hdl)

"Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi.  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.

Að þessu athuguðu verður að miða við að upphaflegur höfuðstóll skulda varnaraðila hafi verið 357.500.000 krónur og að hann hafi ekki hækkað.  Varnaraðili telur verðmæti eigna sinna, sem sóknaraðili eigi veðrétt í, nema rúmlega 600 milljónum króna.  Þá segir hann á yfirlitsblaði er hann lagði fram að sóknaraðili hafi metið verðmæti eignanna 474 milljónir króna.  Þessu var ekki mótmælt í málflutningi.  Ætla verður að krafa sóknaraðila hafi hækkað frá því að lánin voru veitt, en eins og málið er reifað hér fyrir dómi er ekki unnt að áætla með viðunandi nákvæmni heildarfjárhæð skuldarinnar.  Sýslumaður hefur ekki lagt til grundvallar ákvörðun sinni réttan útreikning á kröfu sóknaraðila og óljóst er hvernig hann metur eignir varnaraðila.  Er því rökstudd ástæða til að ætla að gerðin gefi ekki rétta mynd af fjárhag varnaraðila, sbr. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.  Verður því að hafna kröfu sóknaraðila.

Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Hafnað er kröfu sóknaraðila, NBI hf., um að bú varnaraðila, Þráins ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað."

Lesa áfram...

Málatilbúnaður SP-fjármögnunar

Hæstiréttur staðfesti úrskurð um frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur í máli SP-fjármögnunar (Sigurmar K. Albertsson hrl.) gegn Jónasi Vali Jónassyni og Önnu Sigurlínu Karlsdóttur (Björn Þorri Viktorsson hrl.). 

 

Úrdráttur úr dómi hæstaréttar (smellið hér til að lesa allan dóminn á vef Hæstaréttar):

"Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði er niðurstaða hans á því reist að málatilbúnaður sóknaraðila í stefnu hafi ekki uppfyllt kröfur e. liðar 1. mgr. 80 gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðili hefur nú freistað þess að skýra kröfur sínar frekar með því að leggja fram ný gögn fyrir Hæstarétt.

...

Það verður því ekki bætt úr annmörkum á reifun máls í stefnu með því að leggja fram gögn og skýringar á kröfugerð fyrir Hæstarétti í kærumáli vegna frávísunar máls frá héraði.

...

Dómsorð (Hæstiréttur):

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að vísa máli sóknaraðila, SP-fjármögnunar hf., á hendur varnaraðilum, Jónasi Val Jónassyni og Önnu Sigurlínu Karlsdóttur, frá héraðsdómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, samtals 200.000 krónur til hvors þeirra um sig."

Þess má geta að fjallað er um dóminn á Eyjan.is en þar eru ýmsar athyglisverðar upplýsingar reifaðar í athugasemdum lesenda.

Einnig vekur athygli að Hæstiréttur tekur sérstaklega fram að málskostnaður kr. 200 þús. skuli greiða stefndu hvoru um sig þ.e. 400 þús. samtals en úrskurður Héraðsdóms er ekki þannig fram settur. Svo virðist sem Hæstiréttur vilji með þessu senda SP-fjármögnun og lögmanni þess skilaboð. Við látum lesendum eftir hugleiðingar um það.

Dóm Héraðsdóms má lesa á heimasíðu Hæstaréttar í kjölfar dóms Hæstaréttar. Honum má einnig fletta upp á heimasíðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Úrskurður Héraðsdóms var kveðinn af Hervör Þorvaldsdóttur héraðsdómara. Úrskurður Hæstaréttar var kveðinn af Ingibjörgu Benediktsdóttur, Garðari Gíslasyni og Jóni Steinari Gunnlaugssyni.

Hagsmunasamtök heimilanna óska Jónasi Vali Jónassyni, Önnu Sigurlínu Karlsdóttur og Birni Þorra Viktorssyni hrl. til hamingju með varnar sigur í þessu máli.

Lesa áfram...

Málsókn SP-fjármögnunar vísað frá í Héraðsdómi

Eftirfarandi er útdráttur úr dómsorði:

"Eins og áður greinir var mál þetta flutt um frávísunarkröfu stefndu og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér.

Stefnandi sem er fjármögnunarleiga krefur í máli þessu stefndu um greiðslu eftirstöðva bílasamnings aðila, sem stefnandi rifti hinn 12. desember 2008.  Stefndu krefjast frávísunar málsins þar sem málatilbúnaður stefnanda sé ekki í samræmi við áskilnað 80. gr. laga nr. 91/1991.

Lesa áfram...

Tímamóta dómur Áslaugar Björgvinsdóttur héraðsdómara

Mál nr.                         E-7206/2009:
Stefnandi:                   Lýsing hf. (Sigurmar Kristján Albertsson hrl.)

Stefndu:                      Jóhann Rafn Heiðarsson (Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.)
                                     Trausti Snær Friðriksson

Dómari:                       Áslaug Björgvinsdóttir, settur héraðsdómari

Lesa áfram...

GREIÐSLUVERKFALL hefst 19. febrúar 2010

Þriðja greiðsluverkfall HH hefur verið ákveðið að byrji 19. febrúar 2010. Að þessu sinni er það ótímabundið. Við höfum fengið okkur full södd af aðgerðarleysi stjórnvalda og sýndarmennsku banka með innihaldlausu ímyndarauglýsingaskrumi. Brýnar réttarbætur til handa lántakendum hafa verið látnar sitja á hakanum og ekkert bólar á alvöru leiðréttingum á stökkbreyttum lánum og gölnum verðbótum. Siðlaus eignaupptaka ríkis og banka hjá almenningi byggð á forsendubresti sem þessir sömu aðilar bera ábyrgð á er enn á fullu skriði.

Lesa áfram...

Ályktun frá Ámunda á útifundi 30. jan. 2010

Eftirfarandi ályktun var borin upp á útifundi á Austurvelli 30. jan. 2010 af Ámunda Loftssyni og samþykkt af fundarmönnum með lófataki.

"Með réttlætingu í fjármálalegu neyðarástandi á Íslandi hafa ríkisstjórnir landsins hafið til vegs nýja yfirstétt. Með lagavaldi, erlendum lántökum og hertri skattheimtu er innistæðueigendum og fjárfestum hlíft við öllum afleiðingum þess að þeir með vaxtagræðgi sinni og óraunhæfum arðskröfum komu bankastarfsemi landsins í þrot haustið 2008.

Á sama tíma  hafa verðtryggðir okurvextir, sem ekki eiga neina hliðstæðu annars staðar í heiminum, leitt af sér tvö- til þreföldun skulda  með velþóknun og afskiptalausu samsinni stjórnvalda.

Á Íslandi er réttarstaða skuldara gagnvart lánadrottnum sú lakasta í allri norðurálfu.

Þúsundir landsmanna hafa með þessum hætti verið ofurseldar óvægnum fjármálastofnunum fyrir lífstíð, samtímis því sem hagur hinna efnameiri vænkast dag frá degi.

Almennur útifundurinn á Austurvelli haldinn 30. Janúar 2010 krefst tafarlausrar og afgerandi stefnubreytingar stjórnvalda í málefnum skuldara.

Fundurinn krefst þess að stökkbreyttur höfuðstóll lána verði leiðréttur.

Fundurinn krefst einnig tafarlausrar og afgerandi lækkunar vaxta.

Að bannað verði að tengja vexti við vísitölur eða gengi erlendra gjaldmiðla.

Að þegar í stað verði sett lög er bæti réttarstöðu skuldara til jafns við það sem annarsstaðar þekkist.

Að þegar verði upprætt spilling í íslensku stjórnkerfi og fjármálastofnunum, sem m.a. forseti landsins ræddi í síðasta nýársávarpi sínu til þjóðarinnar.

Fundurinn hafnar frekari erlendum lántökum eða skattaálögum í þeim tilgangi að verja hag hinna efnameiri og skuldlausu og viðhalda hinu vaxandi misrétti og efnamun sem við blasir og vinstri menn og jafnaðarmenn í ríkisstjórn Íslands hafa gert að málstað sínum.

Fundurinn heitir á samtök vinstri manna og jafnaðarmanna hvar sem þau finnast, að beita áhrifum sínum gagnvart systurflokkum þeirra á Íslandi sem með framgöngu sinni gagnvart skuldurum og blindri hagsmunavörslu fyrir fjármagnseigendur, fótumtreður allar hugsjónir félagshyggju og jafnaðarmanna. Ennfremur að þau leitist við að hafa áhrif á afstöðu ríkisstjórna landa sinna og tryggja að Íslensku ríkisstjórninni verði ekki veitt frekari lánafyrirgreiðsla fyrr en hlutur hinna skuldsettu  á Íslandi hefur verið leiðréttur.

Fundurinn skorar á alla sem láta sig velferð íslensks almennings og samfélags varða að taka undir þessa ályktun."

Lesa áfram...

Fyrsti dómur fellur í gengistryggðu láni

Dómsmál E-4501/2009 var tekið fyrir föstudaginn 13. nóv. og dómur birtur 3. des. 2009

Í stuttu máli var stefnanda SP-fjármögnun dæmt í hag þrátt fyrir yfirgnæfandi rök um að lán sem þessi væru ólögmæt. Ekki þarf að fjölyrða um að þetta eru Hagsmunasamtökum heimilanna mikil vonbrigði og nokkuð ljóst að dómarar eins og Páll Þorsteinsson eru tilbúnir að dæma þvert ofan í gildandi lög frá 38/2001 um vexti og verðbætur.

Lesa áfram...

Boðað til greiðsluverkfalls 15. nóv til 10 des 2009

Greiðsluverkfallsnefnd HH hefur að vel ígrunduðu máli ákveðið að boða til GREIÐSLUVERKFALLS FRÁ 15. NÓV. TIL 10. DES. 2009.

Að mati stjórnar HH hefur á engan hátt verið svo mikið sem nálgast kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu höfuðstóla íbúðalána heimilanna hvað þá leiðréttingu á öðrum neytendalánum eða endurskoðun á verðbreytingarákvæðum íbúðalána og útreikningum verðtryggingar. Hvorki stjórnvöld, Samtök fjármálafyrirtækja né Landssamband lífeyrissjóða hafa tekið boði samtakanna um samningaviðræður.

Þvert á móti hafa stjórnvöld nú sett lög ("kreppuhalalögin") sem miðast við að staðfesta eignaupptöku fjármálastofnana í helsta sparnaðarformi landsmanna, heimilum þeirra. Forsendubresturinn hefur í reynd verið viðurkenndur, kröfuhafar gömlu bankanna hafa viðurkennt tapið en stjórnvöld og fjármálakerfið eru staðráðin í að halda heimilunum í gíslingu stökkbreyttra höfuðstóla. Reynt er að blekkja okkur með því að tala um "leiðréttingu afborgana" og lengt í ólinni svo tærnar ná að tylla sér og yfirvofandi fjárhagsleg aftaka er dregin á langinn. Engin leiðrétting fer fram á verðbreytingarþætti verðtryggðra eða gengistryggðra lána. Gefin eru óljós loforð um að þetta verði gert seinna þegar betur stendur á. Það er samtökunum hinsvegar alveg ljóst að ef ekki fer fram leiðrétting undir núverandi kringumstæðum, ef menn eru ekki að sjá nauðsyn þess núna munu þeir ekki sjá nauðsyn þess seinna nema þá þegar það er um seinan og skaði þúsunda heimila er óafturkræfur.

GREIÐSLUVERKFÖLL MUNU ÞVÍ HALDA ÁFRAM ÞAR TIL STJÓRNVÖLD OG RÁÐAMENN FJÁRMÁLAKERFIS SJÁ SÉR FÆRT AÐ SEMJA VIÐ HAGSMUNASAMTÖK HEIMILANNA UM LEIÐRÉTTINGU FYRIR HEIMILIN Í LANDINU.

Við viljum réttlæti og höfnum ölmusu þönkum ráðamanna og fjármálakerfis. Hér er um okkar verðmæti að ræða, þeim verður ekki deilt út til bjargar fjármálakerfi sem hefur enn ekki hysjað upp um sig.

Lesa áfram...

SP-fjármögnun braut á viðskiptavinum

Af vef mbl.is: "Neytendastofa telur að eignaleigan SP–Fjármögnun hafi brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með því að breyta almennum skilmálum bílasamninga í erlendri mynt á þá leið að föstu vaxtaálagi skuli framvegis vera unnt að breyta árlega.Neytendastofa telur breytinguna of viðamikla til þess að hún yrði framkvæmd með einfaldri skilmálabreytingu. Þá taldi stofnunin sérstaklega ámælisvert að breytingin hafi ekki verið kynnt lántaka sérstaklega." Lesa nánar hér á mbl.is og úrskurð neytendastofu hér.

 

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum