Erindi til stjórnlagaráðs varðandi eignarréttarákvæði
Ágætu stjórnlagaráðsfulltrúar
Með erindi þessu vilja Hagsmunasamtök heimilanna koma þeirri ósk á framfæri við stjórnlagaráð að það setji á dagskrá umræðu um 72. gr. stjórnarksrárinnar um eignarrétt. Þess er óskað að erindinu verði vísað til þeirrrar nefndar sem stjórnlagaráð telur að sé best til þess fallin að fjalla um það.
Hagsmunasamtök heimilanna auglýsa eftir starfsmanni stjórnar
Hagsmunasamtök heimilanna auglýsa eftir hrikalega duglegum súpermanni/konu í 50% stöðu. Ráðið er í starfið frá og með 15. maí til og með 31. desember 2011 með möguleika á framlengingu. Innan ráðningartímans er gert ráð fyrir ólaunuðu sumarleyfi í nokkrar vikur.
Starfssvið
Undirbúningur stjórnarfunda og ritun fundargerða.
Framkvæmd ákvarðana stjórnar.
Umsjón með heimasíðu og svörun erinda á tölvupósti og stundum í síma.
Umsjón með fjármálum samtakanna og fjáröflun.
Umsjón með kynningarátaki samtakanna.
Skipulagning málefnavinnu.
Ritun umsagna um lagafrumvörp með aðstoð stjórnar.
Ritun greina til birtingar í fjölmiðlum.
Önnur tilfallandi verkefni.
Hæfniskröfur
Samtökin leita að einstaklingi sem hefur þekkingu og brennandi áhuga á málefnum samtakanna og framtíðarsýn og getur hjálpað til við að byggja upp sterk þverpólitísk samtök sem sinna hagsmunum heimilanna. Viðkomandi þarf að vera trúverðugur, heiðarlegur, málefnalegur og ákveðinn í samskiptum við þá sem þörf er á samskiptum við og hafa færni til að setja fram ritmál og talnaefni.
Æskilegt er að hafa menntun eða reynslu sem nýtist í starfi.
Umsóknarfrestur er til 6. maí 2011.
Umsækjendur sendi umsókn og ferilskrá á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Kvörtun lántakenda hefur verið send til ESA
Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega, hafa með aðstoð hæstaréttarlögmanna, sérfræðinga í Evrópurétti og löggiltra endurskoðenda, ásamt um eitt þúsund einstaklingum, undirritað og sent formlega kvörtun til ESA vegna meintra brota íslenskra stjórnvalda og stjórnsýslu á Evrópurétti. Framkvæmdastjórn ESB og forseta Evrópuþingsins hefur jafnframt verið tilkynnt um kvörtunina og aðstoðar þeirra óskað vegna málsins innan ramma aðildarviðræðna Íslands. Neytendur frá Spáni og Þýskalandi eru einnig aðilar að kvörtuninni vegna sömu brota á grundvallarréttindum ríkisborgara aðildarríkja ESB. Samkvæmt Kaupmannahafnarsamkomulaginu frá 1993, er ein af grundvallarforsendum aðildar að ESB, að umsóknarríki virði grundvallarréttindi borgaranna.
Kvörtunin vísar í vanefndir um eftirfylgni við evróputilskipun 93/13/EC í dómaframkvæmd auk lagasetningar nr. 151/2010 er gengur þvert á lögleiddan neytendarétt, eignarréttarákvæði stjórnarskrár og umrædda tilskipun um neytendarétt. Sérstaklega er tekið á eftirmálum af yfirlýstu ólögmæti gengisbundinna lána út frá lögum nr. 38/2001 en einnig verðtryggingu. Kvörtunin snýr að dómsvaldi vegna vanrækslu um vernd neytenda samkvæmt neytendalögum og höfnun beiðna um að leita ráðgefandi álits EFTA dómstólsins. Kvörtunin snýr að löggjafarvaldi vegna laga nr. 151/2010 þar sem fyrri brot dómsvalds gegn neytendarétti eru fest í sessi auk þess sem vernd eignarréttar er sniðgengin og farið gegn sjónarmiðum um bann við afturvirkri íþyngjandi lagasetningu. Þessu til viðbótar snýr kvörtunin að framkvæmdavaldi vegna vanefnda um verndun borgaranna er fjármálastofnanir neyta aflsmunar gegn neytendum í samningagerð.
Í kvörtuninni til ESA, eftirlitsstofnunnar EFTA, er yfirlýsingar óskað um brot Íslands á skuldbindandi ákvæðum EES samningsins. Með brotunum er borgurunum neitað um skýr, nákvæm og óskilyrt réttindi sem þeir hafi öðlast með Evrópurétti. Ályktun ESA verði byggð á eftirfarandi staðreyndum:
- Ófrávíkjanlegur neytendaréttur hefur verið settur til hliðar af dómsvaldi og beiðnum um ráðgefandi réttarfarslegt álit EFTA dómstólsins um áðurnefnd málefni verið hafnað.
- Lagasetning er með afturvirkum íþyngjandi ákvæðum fyrir neytendur.
- Beiðnum til stjórnsýslu um neytendavernd hefur ýmist verið hafnað, afneitað og/eða tæknilegar hindranir settar í götu neytenda.
Ofangreint séu brot á Evrópurétti sem leitt geta til skaðabótaábyrgðar ríkisins gagnvart hlutaðeigandi einstaklingum.
Síðast en ekki síst er óskað yfirlýsingar um að lagarammi verðtryggingar sem er við lýði á Íslandi, þar sem fjárhagslegri áhættu og afleiðingum verðbólgu er sjálfkrafa velt yfir á neytendur, brjóti gegn grundvelli Evrópuréttar. Út frá þeim lagaramma geti neytendur ekki metið fjárhagslegar skuldbindingar sínar við undirritun samnings og jafnvel léttvæg verðbólga hafi íþyngjandi fjárhagslegar afleiðingar yfir heildar samningstímann.
Samtök lánþega
Hagsmunasamtök heimilanna
ESA hópurinn samanstendur af ofangreindum samtökum og félagsmönnum þeirra auk um 1000 einstaklinga sem eru beinir aðilar að kvörtuninni.
Áskorun til Seðlabanka Íslands
Hagsmunasamtök heimilanna skora á Seðlabanka Íslands til að gangast fyrir óháðri rannsókn á kostum og göllum þess að taka upp nýjan íslenskan gjaldmiðil (NISK).
Fram hafa komið hugmyndir í umræðunni um innleiðingu nýrrar íslenskrar krónu til leiðréttingar á innlendum skuldbindingum og til að flýta fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Þær hugmyndir ganga m.a. út á afskriftir á stórum hluta aflandskróna og leiðréttingu á skuldum heimila og fyrirtækja.
Í ljósi versnandi efnahagshorfa, sem orsakast m.a. vegna skuldastöðu heimila, fyrirtækja og áframhaldandi gjaldeyrishafta, er það álit Hagsmunasamtaka heimilanna að óviðunandi sé að rannsaka ekki til hlítar fleiri leiðir til að koma Íslandi út úr kreppunni, og losa heimilin undan ósjálfbærri skuldastöðu. Slíkt hefði keðjuverkandi áhrif með aukinni eftirspurn eftir vörum og þjónustu í hagkerfinu en innlend eftirspurn neytenda og fyrirtækja er líklega nokkuð undir jafnvægismörkum sem stendur.
Umrædd aðferð er ekki ný af nálinni en Þýskaland er meðal annarra þjóða sem hefur þrívegis nýtt sér hana við að koma skikkan á skuldir þjóðarinnar. Er það álit Hagsmunasamtaka heimilanna að hugmyndin eigi skilið umræðu og að Seðlabankinn eigi að gangast fyrir óháðri rannsókn á kostum og göllum hennar í samvinnu við fræðasamfélagið.