Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Mætum á Austurvöll og höfum hátt

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja fólk til að fjölmenna á Austurvöll í kvöld kl. 19:40 og hafa hátt.

Nú er enn einu þinginu að ljúka, án þess að tekið hefur verið á lánamálum heimila og fyrirtækja.
Látum í okkur heyra, látum Alþingi og ríkisstjórn heyra að við erum ekki ánægð með árangursleysið í lánamálum.

Við krefjumst almennra lánaleiðréttinga.
Við krefjumst afnáms verðtryggingar á neytendalán.
Við krefjumst þess að lögleysan nr. 151/2010 verði afnumin og réttmæt lög sett um endurútreikninga gengistryggðra lána.
Leiðréttingar á forsendubresti lána eru ekki ölmusa eða gjöf, heldur  leiðréttingar á oftöku vaxta og verðbóta sem allir eru að gjalda fyrir.

Mætum á Austurvöld í kvöld og höfum
hátt á meðan eldhúsdagsumræður fara fram á Alþingi. 

 

Lesa áfram...

Kreppan ekki nógu djúp fyrir Seðlabankann

Hagsmunasamtökum heimilanna hafa borist svör við formlegri beiðni þeirra um, að Seðlabanki Íslands leggi faglegt mat, eða efni til óháðrar rannsóknar í samvinnu við fræðasamfélagið á skiptigengisleið sem stjórnvaldsúrræði í glímunni við afleiðingar kreppunnar – baráttu sem er orðin bæði of löng og þungbær þjóðinni að mati sífellt fleirri málsmetandi aðila.

Lesa áfram...

Endurupptaka heimil vegna gengistryggðra lána

Þeir sem hafa verið sviptir eignum með fjárnámi eða nauðungarsölu vegna vanskila á gengistryggðu láni, eða verið úrskurðaðir gjaldþrota vegna slíkra lána, geta átt rétt á endurupptöku slíkra mála fyrir dómstólum.

Lesa áfram...

Fjölmennum á Austurvöll og höfum hátt!

Nú er þessu þingi að ljúka með eldhúsdagsumræðum næstkomandi miðvikudag kl. 19.40, enn eitt þingið á hrunárunum þar sem heimili landsins eru látin sitja á hakanum varðandi úrlausnir í lánamálum og endalausum byrðum er á herðar þeirra hlaðið.  Hvar er réttlætið?! Fór það í frí?

Fjölmennum á Austurvöll á miðvikudagskvöldið næstkomandi, þann 8. júní og höfum hátt á meðan eldhúsdagsumræður fara fram. Látum í okkur heyra, látum Alþingi heyra hversu ósátt við erum með árangursleysi þingsins í skuldamálum heimilanna.

Kjarni málsins;

Efnahagshrun, áralöng markaðsmisnotkun og svik fjármálastofnana, stöðutaka gegn krónunni á meðan veitt voru ólögleg gengistryggð lán. Verðtryggðu lánin hlaða utan á sig eins og snjóflóð og stuðla að hreinni og beinni eignaupptöku þegar litið er til uppsafnaðra verðbóta. Uppsöfnuð verðbólga er nú hátt í 40% bara frá árinu 2008.

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð í janúar 2009, kröfðust almennra leiðréttinga á því tjóni sem heimilin urðu fyrir með oftöku verðbóta og vaxta í formi gengistryggingar. Þess var krafist að byrðum hrunsins yrði deilt milli heimilanna og fjármálastofnana. Ekkert gerðist nema hálfkák og aum úrræði, nauðungarsölur og vörslusviptingar voru látnar viðgangast þrátt fyrir vitneskju um að gengistryggðu lánin væru líklegast ólögmæt, sem síðan kom réttilega í ljós. Stjórnvöld settu þá lög til að heimila lögbrjótunum að endurreikna lán aftur í tímann þrátt fyrir að kröfur þess tíma hafi þegar verið greiddar. Bæði íslensk lög og evróputilskipanir virtar að vettugi til að hygla lögbrjótunum og enginn vill viðurkenna mistökin þrátt fyrir að svo augljós séu.

Tíminn líður og heimilin blæða, hærri afborganir og óréttlæti látið viðgangast, verðbætur hlaðast upp á höfuðstól verðtryggðra lána á meðan stjórnvöld gefa það út að ekki verði farið í frekari aðgerðir í þágu heimilanna, engar almennar leiðréttingar, stórfellt tjón heimilanna ekki viðurkennt sem skyldi og ekki litið á það sem forsendurbrest í lánasamningum sem beri að leiðrétta.

Hvar er réttlætið?! Fór það í frí?

Lesa áfram...

Alvarlegir meinbugir á lögum um endurreikninga

Alvarlegir meinbugir á lögum nr. 151/2010 gera að verkum, að innheimta fjármálafyrirtækja á endurútreiknuðum gengistryggðum lánum stangast á við bæði íslenskan kröfurétt og neytendarétt og líklega einnig Evróputilskipanir. Hagsmunasamtök heimilanna hafa því skorað á Alþingi að nema þessi ólög úr gildi nú þegar.

Hagsmunasamtök heimilanna skora samhliða á Umboðsmann skuldara að embættið láti stöðva innheimtu endurreiknaðra lána verði stöðvuð þar til lögmæt reikniaðferð hefur verið skilgreind eða ólögin nr. 151/2010 hafa verið tekin til gagngerrar endurskoðunar.

 

Áskorun samtakanna á Umboðsmann skuldara felur einnig í sér að fjármálafyrirtæki verði krafin um samræmda og gangsæja innheimtu á ólöglega gengistryggðum lánum, í samræmi við m.a. neytendarétt, Evróputilskipanir og góða viðskiptahætti. Enn fremur að fjármálafyrirtækin verði krafin skýringa á þeirri innheimtu sem átt hefur sér stað á grundvelli þessara ólaga, svo að ganga megi úr skugga um hvort þau hafi haft fé ranglega af viðskiptavinum sínum með afturvirkum útreikningum eða öðrum ólöglegum hætti - og úrbóta krafist reynist svo vera.

Mikill vafi leikur því hver sé rétt reikniaðferð samkvæmt lögum nr. 151/2010. Niðurstöður úttektar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands á endurútreikningum eru þessu marki brenndar. Svo mikil er reyndar óvissan að helmingur greinargerðarinnar fjallar um hin ýmsu vafaatriði sem ekki er tekin afstaða til, eða þá að sú afstaða er bæði í ósamræmi við reiknilíkan skýrsluhöfunda sjálfra sem og túlkun óháðra lögfræðinga og endurskoðenda. Það er því fullkomlega óljóst á hverju niðurstöðurnar byggja, nema ef vera skyldi eftiröpun á reikniaðferðum fjármálafyrirtækjanna eins og þær endurspeglast í sýnidæmum þeirra sjálfra.

Þá vekur að mati samtakanna sérstaka athygli, að hvorki Lagastofnun Háskóla Íslands né Háskólans í Reykjavík sáu sér fært að veita álit um rétta túlkun laganna. Varla þarf frekari vitnisburðar við, um þá alvarlegu meinbugi sem eru á lögum nr. 151/2010
.

Þá gagnrýna Hagsmunasamtök heimilanna harðlega, að nýleg
könnun á endurútreikningum gengistryggðra lána hafi alfarið verið byggð á vitnisburði fjármálafyrirtækjanna sjálfra, en ekki á raunverulegri innheimtu lánanna. Ólíkt fullyrðingum fjármálafyrirtækjanna, benda rannsóknir óháðra endurskoðenda og lögmanna til þess að endurútreikningarnir séu vafasamir. Hagsmunasamtök heimilanna krefjast með hliðsjón af þessu, sjálfstæðrar rannsóknar á því með hvaða hætti endurútreikningar birtast á raunverulegum innheimtuseðlum. Án slíkra upplýsinga er ómögulegt að meta sannleiksgildi órökstuddra fullyrðinga fjármálafyrirtækjanna, hvað þá réttmæti endurútreikninganna.


Sjá áskorun HH á Alþingi

Sjá áskorun HH á Umboðsmann skuldara

Sjá umsögn US um frumvarp til laga nr. 151/2010

Lesa áfram...

Áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna á Alþingi

Hagsmunasamtök heimilanna skora á Alþingi að nema lög nr. 151/2010 tafarlaust úr gildi og taka þau til endurskoðunar fyrir áætluð þinglok, 9. júní 2011. Á lögunum eru alvarlegir meinbugir, með þeim afleiðingum að innheimta banka og sparisjóða á endurútreiknuðum lánum brýtur í bága við meginreglur kröfuréttar, neytendaverndar og jafnvel stjórnarskrá, auk þess sem fullkomin óvissa ríkir um réttmæti laganna samkvæmt reglum evrópska efnahagssvæðisins og þeim Evróputilskipunum sem hafa verið innleiddar í íslensk lög.



Þá er með öllu óviðunandi að fjármálafyrirtækjum hafi verið gert kleift á grundvelli laga nr. 151/2010 að útfæra hvert um sig sína eigin endurútreikninga á lánunum. Geti jafn margar aðferðir rúmast innan laganna og raun ber vitni er ógjörningur að skera úr um réttmæti þeirra. Sýnir það glöggt markleysu þessarar lagasetningar að hvorki Lagastofnun Háskóla Íslands né Háskólans í Reykjavík hafa séð sér fært að veita álit um rétta túlkun laganna og í úttektum óháðra sérfræðinga hafa komið fram skiptar skoðanir.

Meginregla í íslenskum kröfurétti er að lánveitendum sé óheimilt að beita afturvirkum innheimtuaðgerðum á kostnað lántakenda. Þá er réttur neytenda skýr í landslögum og Evróputilskipunum gangvart ógagnsæjum viðskiptaháttum og torskildum lánasamningum. Í báðum tilvikum er um frumforsendu þess að ræða að almenningur geti gætt lögvarinna hagsmuna sinna. Vandséð er hvernig lög nr. 151/2010 geti gert einstaklingum mögulegt að standa skil á réttum greiðslum af lánum sínum, en lög sem gera kröfu um ómöguleika eru ekki aðeins vafasöm frá sjónarmiði mannréttinda heldur beinlínis móðgun við heilbrigða skynsemi.

Með vísan í gögn frá Talsmanni neytenda (http://talsmadur.is/Pages/57?NewsID=1429) og Umboðsmanni skuldara (http://www.ums.is/um-umbodsmann/umsagnir-um-thingmal/nr/266) er enn fremur ljóst, að innheimta fjármálafyrirtækja á grundvelli laga nr. 151/2010 á ólöglegum gengistryggðum lánum er ekki aðeins ámælisverð heldur er þar rökstutt hvernig hún er ólögleg. Þess má geta að talsmaður neytenda lagði til við viðskiptanefnd Alþingis að leitað yrði til ESA áður en lögin yrðu samþykkt. Umboðsmaður skuldara rökstuddi svipaða afstöðu í umsögn sinni um málið - þ.e. að lögin stæðust ekki Evrópureglur um neytendarétt og lagðist gegn því að skuldurum yrði í kjölfar endurútreiknings gert að sæta hækkun á eftirstöðvum höfuðstóls, eða eftir atvikum gert að greiða bakreikning t.d. vegna þegar efndrar skuldbindingar. Þá má minna á að T alsmaður neytenda hvatti Hæstarétt formlega í bréfi sl. haust að leita ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum um hvort breyta mætti samningum neytenda eftirá - til þess að tryggja að Evrópureglur um neytendavernd yrðu virtar.

Í stað þess að leitast við að vanda til við lagasetningu og bæta það tjón sem ólögleg gengistryggð lán hafa valdið viðskiptavinum þeirra, er þvert á móti reynt að hafa mest mest fé út úr þeim með vægast sagt vafasömum hætti.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú sent kvörtun til ESA er varða umrædd lög og telja samtökin að stöðva beri ólögmæta innheimtu fjármálafyrirtækja á grundvelli laga nr. 151/2010 nú þegar. Á meðan endurskoðun umræddra laga fari fram verði fjármálafyrirtækjum gert skylt að hverfa frá allri innheimtu og innheimtuaðgerðum er þau varða.
Lesa áfram...

Áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna á Umboðsmann skuldara

Hagsmunasamtök heimilanna skora á embætti Umboðsmanns skuldara að krefja nú þegar fjármálafyrirtæki um brýnar úrbætur á endurútreikningum ólöglegra gengistryggðra lána. Úrbæturnar miði að því að fjármálafyrirtækin styðjist við eina samræmda og gagnsæja aðferð við endurútreikningana, í samræmi við lög, Evróputilskipanir og góða viðskiptahætti.



Hagsmunasamtök heimilanna hafa í dag skorað á Alþingi að nema lög nr. 151/2010 nú þegar úr gildi. Gangi það ekki eftir fyrir áætluð þinglok 9. júní n.k. er afar brýnt að Umboðsmaður skuldara hafi heimild til að krefja fjármálafyrirtæki um áðurnefndar úrbætur.

Jafnframt skora Hagsmunasamtök heimilanna á embættið að það krefji fjármálafyrirtækin um tafarlausar skýringar á þeirri innheimtu sem þau hafa staðið að á grundvelli laganna nr. 151/2010. Í framhaldi af því verði gengið úr skugga um hvort fyrirtækin hafi haft fé ranglega af viðskiptavinum sínum með afturvirkum útreikningum eða öðrum ólögmætum hætti og úrbóta krafist ef svo reynist vera.

Hagsmunasamtök heimilanna benda á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XI í lögum um vexti og verðtryggingu, með samþykktum breytingum frá því í desember s.l., er Umboðsmanni skuldara skylt að afla skýringa á útreikningum fjármálafyrirtækjanna á ólöglega gengistryggðum útlánum. Þá veitir ákvæðið embættinu einnig heimild til að kveða á um úrbætur, telji það útreikninga ekki í samræmi við lög nr. 151/2010, auk þess sem umboðsmaðurinn getur farið fram á heimild ráðherra til að krefjast úrbóta, sé þess talið þörf.

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna harðlega þau vinnubrögð við nýlega könnun á endurútreikningum gengistryggðra lána að byggja hana einvörðungu á vitnisburði fjármálafyrirtækjanna sjálfra, en ekki á raunverulegri innheimtu lánanna. Engin ástæða er til að ætla að hinir brotlegu segi satt frá um eigið athæfi. Margir einstaklingar telja að fjármálafyrirtækin reikni með vafasömum hætti, eins og rannsóknir óháðra endurskoðenda og lögmanna hafa nú einnig gefið til kynna. Hagsmunasamtök heimilanna krefjast sjálfstæðrar rannsóknar á því með hvaða hætti endurútreikningar birtast á raunverulegum innheimtuseðlum. Án slíkra sönnunargagna er ómögulegt að meta sannleiksgildi órökstuddra fullyrðinga fjármálafyrirtækjanna, hvað þá réttmæti endurútreikninganna.

Mikill vafi leikur á um hvað sé rétt reikniaðferð samkvæmt lögum nr. 151/2010. Niðurstöður úttektar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands á endurútreikningum eru þessu marki brenndar, svo mikil er reyndar óvissan að helmingur greinargerðarinnar fjallar um hin ýmsu vafaatriði sem ekki er tekin afstaða til, eða þá að sú afstaða er bæði í ósamræmi við reiknilíkan skýrsluhöfunda sjálfra sem og túlkun óháðra lögfræðinga og endurskoðenda. Það er því fullkomlega óljóst á hverju niðurstöðurnar byggja, nema ef vera skyldi eftiröpun á reikniaðferðum fjármálafyrirtækjanna eins og þær endurspeglast í sýnidæmum þeirra sjálfra.

Sérstaka athygli vekur að hvorki Lagastofnun Háskóla Íslands né Háskólans í Reykjavík sáu sér fært að veita álit um rétta túlkun laganna. Varla þarf frekari vitnisburð um þá alvarlegu meinbugi sem eru á lögum nr. 151/2010 að jafnvel æðstu sérfræðistofnanir skuli ekki treysta sér til að skýra þau.

Hagsmunasamtök heimilanna skora á Umboðsmann skuldara að sjá til þess að innheimta endurreiknaðra lána verði stöðvuð þar til rétt reikniaðferð hefur verið skilgreind svo sannreyna megi innheimtuseðla, eða lög nr. 151/2010 hafa verið felld úr gildi og tekin til endurskoðunar.

Lesa áfram...

ESA kvörtun fylgt eftir

Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega fóru með sendinefnd til Brussel til að fylgja eftir ESA kvörtun samtakanna og hefur nefndin nú snúið aftur frá vel heppnaðri ferð. Tilgangur ferðarinnar var að fylgja eftir kvörtuninni með persónulegri hætti en hægt er með bréfaskrifum einum saman. 6 manns voru í sendinefndinni, Ólafur Garðarsson fór fyrir Hagsmunasamtök heimilanna en Margrét Tryggvadóttir alþingismaður fór fyrir hópnum sameiginlega. Í ferðinni var einnig ráðgjafi samtakanna í evrópurétti auk talsmanns hópsins og lagalegs ráðgjafa, Björns Þorra Viktorssonar hrl. Fundað var með fulltrúum ESA og kvörtunin yfirfarin í mæltu máli. Persónuleg yfirferð sem þessi er nauðsynleg til að fullvissa okkur um að skilningur væri til staðar á inntaki kvörtunarinnar. Sendinefndin var sammála um að fundurinn hefði verið nauðsynlegur og gagnlegur.

Á myndinni fagnar Björn Þorri Viktorsson vel heppnaðri ferð í landganginum á heimleið.

Sendinefndin hitti einnig fulltrúa Evrópuþingsins sem sýndu málefninu mikinn skilning og var augljóst að þau höfðu kynnt sér kvörtunina vel. Fulltrúar Evrópuþingsins gáfu mjög skýrt til kynna að svona gæti ekki gerst innan Evrópusambandsins og að pólitískum þrýstingi yrði beitt til að fá fram réttlæti fyrir íslenskan almenning.

Allir fundirnir í Brussel fengust á einum degi og var síðasti fundurinn með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB, nánar tiltekið með inngöngunefnd fyrir Ísland. Erfitt er að ráða í viðbrögð fulltrúanna en fundurinn var reyndar fyrst og fremst til að upplýsa framkvæmdastjórnina um kvörtunina þar sem hún getur hugsanlega haft áhrif á inngönguferli Íslands í Evrópusambandið.

Full ástæða er til bjartsýni, enda er lagalegur grundvöllur kvörtunarinnar traustur. Réttur neytenda er skýr í Evrópurétti en breytingar á vöxtum neytendalána brýtur klárlega á rétti lántakenda að áliti lögfræðiráðgjafa HH svo ekki sé minnst á afturvirka endurútreikninga lánanna.

 

Lesa áfram...

Ályktun um aðgerðir Landsbankans fyrir skuldug heimili

Hagsmunasamtök heimilanna fagna frumkvæði Landsbankans til að komast á móts við skuldug heimili, og hvetja um leið stjórnvöld og fjármálastofnanir til að tryggja að jafnræðis sé gætt á meðal skuldara.  Forkastanlegt er að skuldurum sé mismunað á grundvelli þess hvar þeir eru í viðskiptum, eða hvort þeir eru í skilum með lánin.

 

Viðbrögð bankastjóra Arionbanka, um að bankinn harmi að horfið hafi verið frá því samráði sem bankarnir áttu um þær lausnir sem boðið yrði upp á, afhjúpa þó hve illa er komið fyrir viðskiptavinum banka í eigu vogunarsjóða, sem raunin er með Arionbanka og Íslandsbanka. Má segja að þetta sé birtingarform mistaka fjármálaráðherra sem kom fram í skýrslu hans um það hvernig endursamið var við gömlu kröfuhafa bankanna.

Þó verður að segjast um útspil Landsbankans að um er að ræða jákvætt skref í átt að raunverulegum lausnum fyrir skuldug heimili, en betur má ef duga skal. Tímasetning útspilsins er áhugaverð í því ljósi að bankinn birti sama dag afkomu sem sýndi fram á annan besta ársfjórðung bankans til þessa.

Mikilvægt er að benda á, að þær úrlausnir sem Landsbankinn hefur kynnt koma honum sjálfum mest til góða, og er um að ræða hagræðingu í verkferlum bankans auk þess sem eitraðar eignir hans eru afskrifaðar. Einnig má gera ráð fyrir að bankinn sé að búa sig undir stórhækkaða verðbólgu þegar líða tekur á árið vegna nýrra kjarasamninga og veikingar krónunnar.  Þannig má ætla að bankinn sé að reyna koma í veg fyrir stórkostlega greiðsluerfiðleika næsta vetur vegna einhliða verðtryggingar á lánsfé.

Gagnrýnivert er að gengið sé í manngreiningarálit í aðgerðum sem þessum þar sem skuldurum er mismunað á grundvelli þess hvar þeir eru í viðskiptum, hvort þeir eru í vanskilum og hvort þeir skulda meira en 30 milljónir eftir stökkbreytingu lána eftir bankahrunið.  Stjórnvöld hafa skyldum að gegna til að gæta jafnræðis í aðgerðum fyrir skuldug heimili og er það sérstakt áhyggjuefni að forsætisráðherra skuli lýsa því yfir að Íbúðarlánasjóður sé ekki í stakk búinn til að bjóða upp á áþekk úrræði. Nú er verið að leggja fram frumvarp á Alþingi þar sem settir eru sérstakir skattar á fjármálafyrirtækin til að fjármagna sérstaka niðurgreiðslu í gegnum vaxtabótakerfið og þykja samtökunum ærin ástæða til að hækka þann skatt til muna til að mæta með duglegri hætti þeim höfuðstólshækkunum sem heimilin hafa tekið á sig í hruninu. Í því samhengi er vert að benda á hagnað bankanna frá hruni til 31. mars 2011:

  Landsb.

Íslandsb.

Arion Samtals
2008 -6,9 2,4 4,8 0,2
2009 14,3 24,0 12,9 51,2
2010 27,2 29,4 12,6 69,2
2011Q1 12,7 3,6 3,0 19,2
Samtals 47,3 59,3 33,2 139,8


Eina raunhæfa lausnin fyrir heimilin í landinu eru almennar aðgerðir til leiðréttingar á skuldum heimila í landinu og afnám verðtryggingar. Það yrði vissulega til að vinna sátt með heimilunum.

Lesa áfram...

Tóku stöðu gegn heimilunum

„Þetta vekur auðvitað mikla reiði on vonbrigði. Vinnubrögð stjórnvalda eru svo öfugsnúin. Við lítum svo á skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna sýni að stjórnvöld tóku stöðu með fjármálakerfinu gegn heimilunum," segir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, form. Hagsmunasamtaka heimilanna.

„Skjaldborgin er slegin um fjármálakerfið. Skýrslan varpar ljósi á að skjaldborgin gat aldrei orðið, vegna þessa að það var í raun búið að framselja hana. Það var búið að semja um að hún gæti aldrei risið," segir Andrea Jóhanna og boðar að samtökin og félagsmenn þeirra muni ekki sitja aðgerðalausir ef stjórnvöld rétti ekki heimilunum hjálparhönd.

 

Ekki samið við þessa stjórn

„Við ætlum að hrinda af stað undirskriftasöfnun í næstu viku. Okkur í Hagsmunasamtökum heimilanna ásamt þorra þjóðarinnar er orðið algerlega ljóst að við þessa ríkisstjórn verður ekki samið um að ná fram réttlátum leiðréttingum á lánum vegna þeirrar eignatilfærslu og forsendubrests sem heimilin urðu fyrir í efnahagshruninu.

Diplómatísk og sanngjörn samningaleið var okkar nálgun frá upphafi, því við töldum að þjóðin öll þyrfti að nálgast endurreisnina með þjóðarsátt í huga. En sú leið er ekki fær með sjúkum leikreglum „Gamla Íslands" sem stjórnvöld standa vörð um. Það er enginn vilji til þess að horfast í augu við það að öll heimili landins urðu fyrir miklu tjóni sem Hagsmunasamtök heimilanna telja að enn hafi ekki verið leiðrétt að fullu og þurfi að leiðrétta.

Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að brotaþolendum væri sendur reikningurinn en lögbrjótar fái skaðabæturnar. Þetta er nú að gerast með aðstoð alls stjórnkerfisins, dóms- löggjafar og framkvæmdavaldsins í heild sinni sem aðstoðar bankana við að fá bætur fyrir ólöglega samninga og markaðsmisnotkun og svik við viðskiptavininn sem viðgengist hefur árum saman."

Hún segir að stjórnvöld hefðu betur hlustað á viðvaranir samtakanna. „Við lögðum til einfalda og hraðvirka aðgerð strax í upphafi hrunsins, að leiðrétta öll veðlán heimilanna með almennum hætti með einni niðurfærslu í þann höfuðstól sem lánið var í byrjun árs 2008 og sett yrði 4% þak á verðbætur og síðan yrði verðtrygging afnumin í skrefum. Við vöruðum við því að ef ekki væri farið í eina fljóta aðgerð myndi hagkerfið allt líða og endurreisnin taka lengri tíma.

Við vöruðum við ólögmæti lánanna. Við vöruðum við því að þær leiðir sem farnar væru við að hjálpa fólki væru ýmist illa framkvæmanlegar og tímafrekar, óréttlátar og óskilvirkar. Við vöruðum við samdrætti í neyslu og samdrætti hagkerfisins í heild. Við vöruðum við þeim óvinsældum sem bankakerfið bakaði sér og glötun á trausti. Við vöruðum við atvinnuleysi. Við vöruðum við fólksflótta frá landinu, sérstaklega ungs menntaðs fólks. Við vöruðum við samdrætti í skatttekjum sem einni afleiðingu," segir hún og bendir á að hagtölur sýni ljóslega fram á að því miður hafi þessi aðvörunarorð ræst.

Á að vera öllum ljóst

Hún rökstyður mál sitt svo:

„Við vöruðum við því að bankakerfið mundi tapa meiru af þeirri leið sem var svo farin heldur en að fara í almennar leiðréttingar fyrr en seinna. Það hefur verið farið eins vitlaust í málin og mögulegt var og landið mun ekki rísa á ný fyrr en heimilin verða endurreist og fólk upplifir réttlæti í því sem gert er, þetta snýst nefnilega um réttlæti gagnvart hinum almenna borgara sem var grandalaust peð í rántafli fjármálakerfisins. Fólk upplifir núna einungis svik á svik ofan, bæði vegna fyrrum ráðamanna og núverandi stjórnar og það eygir ekki von um réttlátt samfélag. Þessi glapræði og skammsýni mun kosta okkur áratug að jafna okkur, það ferli er bara rétt að byrja.

Það er að renna upp ljós fyrir samtökunum núna og fyrir þjóðinni allri að skjaldborgina átti aldrei að slá um heimilin nema að örlitlu og veiku leiti. Skjaldborgin var slegin um fjármálakerfið um leið og ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að semja við kröfuhafa gömlu bankanna um að endurheimt yrði sem allra mest af útlánum og þeir fengju hluta af þeim ágóða. Þetta var gert jafnvel þrátt fyrir þann forsendubrest sem fólk varð fyrir í lánasamningum sínum og með þessum samningi hrundi grundvöllur fyrir skjaldborg um heimilin.

Það er augljóst að slíkir samningar og skjaldborgin margumtalaða fara ekki saman, nema gert sé ráð fyrir því frá upphafi hve stór hluti af afslætti lánasafnanna hefði átt að ganga til lántakenda. Okkur hefði þótt eðlilegast að allur afslátturinn hefði gengið beint áfram í leiðréttingu á lánin. Þetta eru ein af mörgum stórum mistökum sem hafði mátt fyrirbyggja með heilbrigðri skynsemi og heildrænni sýn á samfélagið í heild sinni, að endurreisa þyrfti heimilin og atvinnulífið, en ekki eingöngu fjármálakerfið.

Við ætlum okkur ekki að líða stjórnvöldum þessi vinnubrögð og ofbeldi gagnvart fólkinu í landinu, við tökum stöðu með heimilunum, fólkinu til varnar. Við erum tilbúin sem félagasamtök, samtakamáttur fólksins, til að taka slaginn og gera okkar besta til að slá skjaldborg um heimilin. Við vonum að fólk sé tilbúið með okkur í þennan slag, en til þess þarf að gerast félagi, skrá sig með okkur á heimilin.is, því slagurinn verður ekki ókeypis og hann verður ekki skammvinnur.“


Hjá umboðsmanni Alþingis

Andrea Jóhanna segir beðið eftir áliti umboðsmanns Alþingis.

„Við höfum nú þegar sent ábendingu til umboðsmanns Alþingis ásamt mjög vel unninni kvörtun til ESA varðandi gengistryggðu lánin og lögleysuna sem sett var fram af Alþingi og leyfir afturvirka útreikninga. Sú lögleysa stangast á við bæði íslensk lög og Evróputilskipanir er varða neytendarétt. Eins höfum við sent innanríkisráðherra sömu ábendingu um meinbugi í þessum sömu lögum [151/2010].

Við munum síðan senda aðra ábendingu til Umboðsmanns Alþingis sem varðar þá ágalla sem við höfum komist að með okkar rannsókn á verðtryggðu lánunum, en okkur virðist sem reiknireglur Seðlabanka Íslands með að uppreikna höfuðstól láns í hverjum mánuði standist ekki skoðun þegar borið er saman við lög [38/2001] um vexti og verðtryggingu. Auk þess teljum við að um mjög flókna fjármálaafurð sé að ræða og augljósan forsendubrest sem við bendum á líka í þessu sambandi. Við erum að undirbúa prófmál er varðar verðtryggð lán vegna þessa,“ segir hún.

Undirskriftasöfnun að fara í gang

Andrea Jóahanna segir undirskriftarsöfnun með kröfu um leiðréttingar á lánasamningum heimilanna verða hrundið af stað í næstu viku.

„Það sem við vöruðum við hefur allt ræst og við teljum eina meginástæðu vera þá að lánin voru ekki færð niður í raunvirði. Menn búa ekki til verðmæti með því að skrá háar tölur í tölvur og á pappíra, það eru bara loftbólur. Menn þurfa að komast með fæturnar á jörðina og átti sig á hvað raunveruleg verðmæti eru. Menn þurfa að átta sig á hvað hvetur fólk til dáða og menn þurfa að átta sig á að heimilin í landinu eru grunnstoðin sem allt annað byggir á. Heimilin og fólkið eru raunverulegu verðmætin fyrir landið okkar og samfélagið.

Það þarf engan sérfræðing til að sjá það að kaffæring heimilanna í skuldum dregur úr slagkrafti hagkerfisins. Þetta var aldrei spurning um einhverja flókna hagfræði, þetta eru engin geimvísindi. Þetta var alltaf spurning um heilbrigða skynsemi.“

 

 

Lesa áfram...

Umsögn um skýrslu verðtryggingarnefndar Alþingis.

Hagsmunasamtök heimilanna fagna birtingu skýrslu verðtryggingarnefndar Alþingis og þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við útgáfu hennar. Sérstakt fagnaðarefni er að kröfur samtakanna hafa nú náð á blað í skýrslu þingnefndar og fá vonandi umræðu á Alþingi í framhaldinu. Skýrslan gefur til kynna mikinn vilja nefndarinnar til afnáms verðtryggingar.


Samtökin geta tekið undir flestar þær hugmyndir sem í skýrslunni birtast og snúast um að fá verðtrygginguna út úr húsnæðislánakerfinu og tillögur um fleiri valkosti, einkum hvað varðar óverðtryggð lán á lægri vöxtum, á sambærilegum kjörum og í nágrannalöndum okkar. Það er löngu orðið tímabært að íslensk heimili búi við eðlilegra umhverfi á húsnæðislánamarkaði og geti reiknað út greiðslubyrði láns út allan lánstímann og í lánasamningum séu engar opnar breytur án takmarkana. Samtökin vilja skora á stjórnvöld að taka til greina tillögur nefndarinnar um róttækar breytingar í húsnæðislánakerfinu.

Varðandi sérálit nefndarmanna skal tekið fram að fulltrúi Hreyfingarinnar í nefndinni, Arinbjörn Sigurgeirsson, var einnig stjórnarmaður í samtökunum á síðasta starfsári. Í sérálitinu er lagt til þak á verðbætur sem miðast við hærri vikmörk verðbólgumarkmiða Seðlabankans sem er í raun upphafleg tillaga Hagsmunasamtaka heimilanna og ætlað til að hefja afnám verðtryggingar sem og að dreifa ábyrgðinni af hruninu á bæði lántakendur og lánveitendur. Eins er lagt til raunvaxtalækkun og að héðan í frá verði ekki lánað verðtryggt til húsnæðiskaupa og geta samtökin tekið undir þá nálgun nefndarmanna.

Ástæða er til að hrósa formanni nefndarinnar, Eygló Harðardóttur, fyrir að viðhafa gagnsæ vinnubrögð í nefndarstarfinu með birtingu fundargerða og sérálita nefndarmanna með beinum hætti.  Til samanburðar má nefna nefnd um húsnæðismál sem nýlega skilaði af sér skýrslu sem var unnin í lokuðu ferli með engri aðkomu Hagsmunasamtaka heimilanna þrátt fyrir beiðni þar um, en í þeirri nefnd sat hins vegar fulltrúi Samtaka fjármálafyrirtækja. Er það álit Hagsmunasamtaka heimilanna að fleiri nefndir á vegum Alþingis mættu taka sér vinnubrögð verðtryggingar- nefndarinnar til fyrirmyndar.

Samtökin telja þó ástæðu til að ganga enn lengra en gert er í þessari skýrslu í að rannsaka lagalegan grundvöll og reiknireglur verðtryggðra lána sem samtökin telja ákaflega vafasamar, bæði með tilliti til íslenskra laga og evrópsks neytendaréttar.

Lesa áfram...

Kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna til Umboðsmanns Alþingis

Á heimasíðu Umboðsmanns Alþingis segir:

“Samkvæmt 11. gr. laga nr. 85/1997 skal umboðsmaður tilkynna Alþingi og jafnframt hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn, eftir því sem við á, ef hann verður þess var að "meinbugir" séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Í 11. gr. starfsreglna umboðsmanns er við "meinbugi" á lögum og almennum stjórnvaldsfyrirmælum bætt "meinbugum" á starfsháttum í stjórnsýslu.
   Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 13/1987 segir svo um 11. gr. laganna:
   "Meinbugir á lögum eða reglum geta verið nánast formlegs eðlis, svo sem misræmi milli ákvæða, prentvillur, óskýr texti o.fl. Einnig geta meinbugir verið beinlínis fólgnir í efnisatriðum, svo sem mismunar milli manna, reglugerðarákvæði skorti lagastoð eða hreinlega að telja verði ákvæði ranglátt mælt á huglægan mælikvarða. Allt þetta getur umboðsmaður látið til sín taka skv. 11. gr. frv."
   Samkvæmt þessu er ljóst að umboðsmanni er veitt mjög verulegt svigrúm til að láta málefni til sín taka samkvæmt heimild í 11. gr.”Eins er þess getið að Umboðsmaður Alþingis sé heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja með þessu bréfi benda Umboðsmanni Alþingis á meinbugi í lögum nr. 151/2010. Lögin standast að mati samtakanna ekki meginreglu íslenskra laga um bann við afturvirkri lagasetningu og að krafa ljúki tilvist sinni með greiðslu á henni. Samtökin telja að 18. gr. laga 151/2010 sem veitir heimild til þess að endurreikna þegar greidda kröfu með vöxtum Seðlabanka Íslands standist ekki fyrrgreindar meginreglur. Þá telja samtökin að sú framkvæmd við útreikninga hjá bönkunum að vaxta-vaxtareikna og leggja við höfustól þrátt fyrir að greitt hafi verið af lánum hafi ekki skýra lagastoð í nefndri 18. gr. sem skýra verður þröngt. (Þá telja samtökin að lögin standist ekki bann við ójafnri samningsstöðu neytenda, sbr. lög um vexti (38/2001) og neytendarétt (121/1994, 57/2005). )

Samtökin vilja beina þeirri beiðni til Umboðsmanns Alþingis að hefja tafarlaust sjálfstæða rannsókn á lögum 151/2010 þannig að þau verði borin saman við ofannefnd lög og önnur þau lög er málið kunna að varða, sem og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og þær Evróputilskipanir er hafa verið innleiddar hér á landi er varða neytendarétt.s.s. ;

1. [Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum.]1)

2. Tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán (Stjtíð. EB L 42, 12. febrúar 1987, bls. 48) eins og henni var síðast breytt með tilskipun 98/7/EB.)

3. Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

Meðfylgjandi er útdráttur/yfirlit Hagsmunasamtaka heimilanna á kvörtun er send var til eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) ásamt umsögn Umboðsmanns skuldara um lög nr. 151/2010.

Þá vilja samtökin einnig benda á eftirfarandi blaðagreinar lögmanna máli sínu til stuðnings; "Eru fjármálafyrirtækin vísvitandi að hagnast á röngum aðferðum við endurútreikning ólögmætra lána?" eftir Gunnlaug Kristinsson, Fréttablaðið 30. mars 2011.

Sigurður G. Guðjónsson hrl. "Siðleg lögleysa" Pressan 3. apríl 2011.
Sigurður G. Guðjónsson hrl. "Til efnahags- og viðskiptaráðherra" Pressan 16. maí 2011.

Hagsmunasamtök heimilanna óska eftir að fá svar við þessari beiðni frá
Umboðsmanni Alþingis hið fyrsta.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum